Hellingur part 2

Nóvember rann í hlað og áður en nokkur varð var við var kominn miður og jafnvel því miður nóvember. Ljósum fjölgaði í bænum og bæjarbúar smelltu enn fleira af dótinu sínu út í gluggann. Hellingur rölti seint um kvöld, líklega sunnudagskvöld, því lífið í bænum var með eindæmum dauft. Enn og aftur fann Hellingur sig standandi fyrir framan flóðlýstan glugga með ótrúlegasta dóti. Hann heyrði eitthvern eða eitthvað nálgast. Hellingur varð pínu smeykur. Hljóðið nálgaðist og nálgaðist. Sama hvað Hellingur reyndi að ganga frá hljóðinu þá færðist það nær.

Hellingur var alveg að komast heim í hellinn sinn, en skrikaði fótur á majónesklessu á stéttinni, einmitt hluti af stærri klessu sem var á borðum hjá Gunnari Kaupmanni sem bjó þar hjá. Gunnar var nýorðinn 60 ára og hafði notið þess í mörg á að mjólka bæjarbúa með ódýrum raftækjum. Gunnar var kannski ekki vondur maður, en hann borðaði mikið af majónesi. Hjartað hans var hulið majónesi og fékk ekki tækifæri til að slá blóði út í kærleiksæðarnar.
Jæja, þetta var nú útúrdúr...Hellingur lá á stéttinni með sært stolt. Að tapa fyrir majónesi var ekkert til að hrópa húrra yfir. Hann hafði einu sinni tapað fyrir fitulitlum sýrðum rjóma, en hann náði nú hefndum síðar. Förum ekki út í það.

Hellingi var allt í einu kippt á fætur. Það var eins og honum væri lyft upp af stórum byggingarkrana. Byggingakraninn reyndist þó vera góðlegur karl, frekar bústinn, með heljarmikið hvítt skegg og klæddur í rautt. Belti bar hann hér um bil um sig miðjan og skórnir hans voru úr glansandi svörtu leðri. Hellingur fann þessa yndislegu kanil og súkkulaði lykt og velti því fyrir sér hvort að góðlegi stóri karlinn notaði aðra tegund af svitalyktareyði.

Hellingur sá að góðlegi karlinn var með blik í augum, en þó einhver depurð með. Hellingur spurði "Hver ert þú?"

Framhald síðar.

Ummæli

Addý Guðjóns sagði…
Ég veit hver þetta er, ég veit hver þetta er! Þetta er Örn Árnason!

Vinsælar færslur